eso1645is — Fréttatilkynning

Band 5 í ALMA tekið í notkun

Nýir móttakarar bæta getu ALMA til að leita að vatni í alheiminum

21. desember 2016

Mælingar á nýju tíðnibili í rafsegulrófinu eru hafnar með Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA) í Chile. Nýir móttakarar sem settir voru upp í loftnetunum og nema útvarpsbylgjur með milli 1,4 og 1,8 millímetra bylgjulengd — sem ALMA gat ekki áður mælt — gera þetta kleift. Stjörnufræðingar geta því nú mælt dauf merki um vatn í nágrenni okkar í alheiminum.

ALMA nemur útvarpsbylgjur utan úr geimnum í lágorkuenda rafsegulrófsins. Með nýju Band 5 móttökurunum hafa augu ALMA opnast fyrir nýju sviði rafsegulrófsins og um leið nýir rannsóknarmöguleikar.

„Nýju móttakararnir auðvelda okkur leitina að vatni, sem er nauðsynlegt lífi eins og við þekkjum það, í sólkerfinu, í Vetrarbrautinni og utan hennar. Móttakararnir gera ALMA ennfremur kleift að leita að jónuðu kolefni í árdaga alheimsins,“ sagði Leonardo Testi, verkefnisstjóri ALMA fyrir hönd Evrópu.

ALMA er í 5000 metra hæð yfir sjávarmáli á Chajnantor hásléttunni í Chile og hentar því ákaflega vel fyrir rannsóknir af þessu tagi. Vatn í lofthjúpi Jarðar gerir stjörnustöðvar í minni hæð og rakara umhverfi ekki jafn vel í stakk búnar til að mæla geislun af þessu tagi. Næmni og greinigæði ALMA þýðir að nú er hægt að nema jafnvel dauf merki um vatn í nágrenni okkar í alheiminum á þessari bylgjulengd [1].

Band 5 móttakarinn, sem var þróaður af Group for Advanced Receiver Development (GARD) í Onsala Space Observatory hjá Chalmers tækniháskólanum í Svíþjóð, hafði þegar verið prófaður í APEX sjónaukanum í SEPIA mælitækinu. Mælingarnar voru gerðar til að hjálpa til við að finna viðfangsefni fyrir fyrstu prófanir með ALMA.

Fyrstu móttakararnir voru smíðaðir og afhentir ALMA á fyrri hluta árs 2015 af samstarfshópi sem samanstóð af Netherlands Research School for Astronomy (NOVA) og GARD, í samvinnu við National Radio Astronomy Observatory (NRAO) sem lagði til sveiflusjána fyrir verkefnið. Móttökurunum hefur nú verið komið fyrir í loftnetunum.

Til að prófa nýju móttakarana voru mælingar gerðar á nokkrum fyrirbærum, þar á meðal samruna vetrarbrauta, Arp 220, stóru stjörnumyndunarsvæði nálægt miðju Vetrarbrautarinnar og rykuga rauða ofurrisastjörnu sem gæti sprungið þá og þegar [2].

Til að vinna úr gögnunum og kanna gæði þeirra komu stjörnufræðingar og tæknimenn frá ESO og European ALMA Regional Centre (ARC) saman í Onsala Space Observatory í Svíþjóð fyrir „Band 5 Busy Week“ sem Nordic ARC tengiliðurinn hýsti [3]. Lokaniðurstöðurnar hafa verið gerðar opinberar.

„Það er afar spennandi að sjá þessar fyrstu niðurstöður frá ALMA Band 5 með nokkrum loftnetum. Í framtíðinni verður ALMA nýtt til hins ítrasta til að rannsaka nákvæmlega fjölda fyrirbæra, þar á meðal stjörnur í mótun, miðgeimsryk og svæði nálægt risasvartholum,“ sagði Robert Laing hjá ESO um mælingar ALMA Band 5.

Skýringar

[1] Lykil litrófsummerki vatns er á þessu tíðnisviði með bylgjulengdina 1,64 millímetrar.

[2] ALMA Extension of Capabilities hópurinn í Chile gerði mælingarnar mögulegar.

[3] Í ESO Band 5 Science Verification hópnum eru: Elizabeth Humphreys, Tony Mroczkowski, Robert Laing, Katharina Immer, Hau-Yu (Baobab) Liu, Andy Biggs, Gianni Marconi og Leonardo Testi. Gagnaúrvinnsluhópurinn samanstóð af: Tobia Carozzi, Simon Casey, Sabine König, Ana Lopez-Sepulcre, Matthias Maercker, Iván Martí-Vidal, Lydia Moser, Sebastien Muller, Anita Richards, Daniel Tafoya og Wouter Vlemmings.

Frekari upplýsingar

Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA), alþjóðleg stjörnustöð, er samstarfsverkefni ESO, National Science Foundation (NSF) í Bandaríkjunum og National Institutes of Natural Sciences (NINS) í Japan, í samvinnu við Chile. ALMA er fjármögnuð af ESO fyrir hönd aðildarríkja þess, af NSF í samstarfi við National Research Council of Canada (NRC) og National Science Council of Taiwan (NSC) og NINS í samvinnu við Academia Sinica (AS) í Taívan og Korea Astronomy and Space Science Institute (KASI).

ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd aðildarríkjanna en National Radio Astronomy Observatory (NRAO), sem lýtur stjórn Associated Universities, Inc. (AUI), fyrir hönd Norður Ameríku og National Astronomical Observatory of Japan (NAOJ) fyrir hönd austur Asíu. Samþætt stjórnun á smíði, prófun og rekstri ALMA er í umsjá Joint ALMA Observatory (JAO).

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Leonardo Testi
European ALMA Programme Scientist, ESO
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6541
Tölvupóstur: ltesti@eso.org

Robert Laing
ESO ALMA Scientist
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6625
Tölvupóstur: rlaing@eso.org

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1645.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1645is
Nafn:Arp 220, First Light
Tegund:Local Universe : Galaxy : Type : Interacting
Facility:Atacama Large Millimeter/submillimeter Array

Myndir

The merging galaxy system Arp 220 from ALMA and Hubble
The merging galaxy system Arp 220 from ALMA and Hubble
texti aðeins á ensku
Band 5 ALMA receiver
Band 5 ALMA receiver
texti aðeins á ensku
One of the Band 5 receivers for ALMA
One of the Band 5 receivers for ALMA
texti aðeins á ensku
One of the Band 5 receivers for ALMA
One of the Band 5 receivers for ALMA
texti aðeins á ensku

Sjá einnig