eso1703is — Fréttatilkynning

ALMA skoðar sólina

17. janúar 2017

Nýjar myndir teknar með Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA) í Chile hafa leitt í ljós áður óséð smáatriði á sólinni okkar og veitt nýja sýn á dökka, afmyndaða miðju sólbletts sem er nærri tvöfalt stærri að þvermáli en Jörðin. Þetta er í fyrsta sinn sem stjörnustöð sem tilheyrir meðal annars ESO tekur myndir af sólinni. Mælingarnar útvíkka tíðnisviðið sem stjörnufræðingar geta nú notað til að rannsaka sólina. Loftnet ALMA voru hönnuð með það í huga að geta tekið myndir af sólinni án þess að verða fyrir skemmdum af völdum hitans frá sólarljósinu.

Stjörnufræðingar hafa notað ALMA til að taka mynd á millímetra sviðinu af lithvolfi sólarinnar — svæðinu sem er rétt fyrir ofan ljóshvolfið, sýnilega hluta yfirborðs sólarinnar. Sólarhópurinn, alþjóðlegur hópur stjörnufræðinga frá Evrópu, Norður Ameríku og austur Asíu [1] tóku myndirnar til að sýna fram á getu ALMA til að rannsaka sólvirkni á lengri bylgjulengdum ljóss en alla jafna eru notaðar í sólarathuganir frá Jörðinni.

Stjörnufræðingar hafa rannsakað sólina og kannað yfirborð hennar og gashjúp með ýmsum hætti í gegnum tíðina. En til að öðlast betri skilning á stjörnunni okkar þurfa stjörnufræðingar að rannsaka hana yfir allt rafsegulrófið, þar á meðal á millímetra- og hálfsmillímetra sviðinu sem ALMA mælir.

Sólin er mörg þúsund milljón sinnum bjartari en daufu fyrirbærin sem ALMA rannsakar alla jafna. Því voru loftnet ALMA sératklega hönnuð til að gera okkur kleift að taka myndir af sólinni í smáatriðum með tækni sem kallast útvarpsvíxlmælingar og til að forðast skemmdir af völdum hitans frá sterku sólarljósinu [2]. Afraksturinn er myndaröð sem sýna einstaka getu ALMA til að rannsaka sólina okkar. Gögnin frá sólarmælingunum voru gerðar opinberar í þessari viku til frekari greiningar stjörnufræðinga um allan heim.

Stjörnufræðingarnir gerðu mælingar á stórum sólbletti á 1,25 millímetra og 3 millímetra bylgjulengd með tveimur móttökurum ALMA. Myndirnar sýna hitastigsmun í mismunandi svæðum lithvolfs sólarinnar [3]. Að skilja hitun og virkni í lithvolfinu er lykilviðgansgefni sem verður skoðað í framtíðinni með ALMA.

Sólblettir eru virk svæði á sólinni þar sem segulsviðið er mjög þétt og öflugt og hindrar uppstreymi heitara efnis úr innviðunum. Blettirnir eru kaldari en svæðin í kring og sýnast þess vegna dökkir.

Munurinn á útliti beggja mynda er kominn til af mismunandi bylgjulengdum ljóssins sem mælt var. Mælingar á styttri bylgjulengdum ná dýpra inn í sólina sem þýðir að myndin á 1,25 millímetra bylgjulengdinni sýnir lag í lithvolfinu sem er dýpra og þar af leiðandi nær ljóshvolfinu en myndirnar í 3 millímetra bylgjulengdinni.

ALMA er fyrsta stjörnustöðin sem ESO er hluti að sem gerir stjörnufræðingum kleift að rannsaka nálægustu stjörnuna, sólina okkar. Verja þarf allar aðrar stjörnustöðvar ESO fyrir sterku sólarljósinu til að forðast skemmdir. Þökk sé ALMA víkkar stjarnvísindasamfélag ESO þannig í sólarstjörnufræðinga líka.

Skýringar

[1] Í ALMA sólarhópnum eru: Shin'ichiro Asayama, East Asia ALMA Support Center, Tokyo, Japan; Miroslav Barta, Astronomical Institute of the Czech Academy of Sciences, Ondrejov, Tékklandi; Tim Bastian, National Radio Astronomy Observatory, Bandaríkjunum; Roman Brajsa, Hvar Observatory, Faculty of Geodesy, University of Zagreb, Króatíu; Bin Chen, New Jersey Institute of Technology, Bandaríkjunum; Bart De Pontieu, LMSAL, Bandaríkjunum; Gregory Fleishman, New Jersey Institute of Technology, Bandaríkjunum; Dale Gary, New Jersey Institute of Technology, Bandaríkjunum; Antonio Hales, Joint ALMA Observatory, Chile; Akihiko Hirota, Joint ALMA Observatory, Chile; Hugh Hudson, School of Physics and Astronomy, University of Glasgow, Bretlandi; Richard Hills, Cavendish Laboratory, Cambridge, Breetlandi; Kazumasa Iwai, National Institute of Information and Communications Technology, Japan; Sujin Kim, Korea Astronomy og Space Science Institute, Daejeon, Suður-Kóreu; Neil Philips, Joint ALMA Observatory, Chile; Tsuyoshi Sawada, Joint ALMA Observatory, Chile; Masumi Shimojo (interferometry lead), NAOJ, Tokyo, Japan; Giorgio Siringo, Joint ALMA Observatory, Chile; Ivica Skokic, Astronomical Institute of the Czech Academy of Sciences, Ondrejov, Tékklandi; Sven Wedemeyer, Institute of Theoretical Astrophysics, University of Oslo, Noregi; Stephen White (single dish lead), AFRL, Bandaríkjunum; Pavel Yagoubov, ESO, Garching, Þýskalandi og Yihua Yan, NAO, Chinese Academy of Sciences, Beijing, Kína.

[2] Þetta gerðist eitt sinn þegar kviknaði í aukaspeglinum í sænska-ESO hálfsmillímetra sjónaukanaum (SEST) þegar honum var óvart beint að sólinni.

[3] Einnig var tekin mynd af allri sólskífunni með einu ALMA loftneti með aðferð sem kallast hraðskönnun á 1,25 millímetra bylgjulengdinni. Nákvæmnin og hraðinn við mælingar með einu ALMA loftneti gerir mönnum kleift að taka mynd af sólinni allri á örfáum mínútum. Á myndinni sést hitastigsmunur í lithvolfinu á skífunni allri í lágri upplausn og bætir hún þannig víxlmælingarnar af stökum svæðum.

Frekari upplýsingar

Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA), alþjóðleg stjörnustöð, er samstarfsverkefni ESO, National Science Foundation (NSF) í Bandaríkjunum og National Institutes of Natural Sciences (NINS) í Japan, í samvinnu við Chile. ALMA er fjármögnuð af ESO fyrir hönd aðildarríkja þess, af NSF í samstarfi við National Research Council of Canada (NRC) og National Science Council of Taiwan (NSC) og NINS í samvinnu við Academia Sinica (AS) í Taívan og Korea Astronomy and Space Science Institute (KASI).

ESO sér um smíði og rekstur ALMA fyrir hönd aðildarríkjanna en National Radio Astronomy Observatory (NRAO), sem lýtur stjórn Associated Universities, Inc. (AUI), fyrir hönd Norður Ameríku og National Astronomical Observatory of Japan (NAOJ) fyrir hönd austur Asíu. Samþætt stjórnun á smíði, prófun og rekstri ALMA er í umsjá Joint ALMA Observatory (JAO).

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Roman Brajsa
Hvar Observatory
University of Zagreb, Croatia
Sími: + 385 1 4639 318
Farsími: + 385 99 2619 825
Tölvupóstur: romanb@geof.hr

Ivica Skokic
Astronomical Institute of the Czech Academy of Sciences
Ondrejov, Czech Republic
Sími: + 420 323 620 133
Farsími: + 385 91 890 5815
Tölvupóstur: ivica.skokic@asu.cas.cz

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1703.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1703is
Nafn:Sun, Sun spot
Tegund:Solar System : Star : Feature : Photosphere : Sunspot
Facility:Atacama Large Millimeter/submillimeter Array

Myndir

ALMA observes a giant sunspot (1.25 millimetres)
ALMA observes a giant sunspot (1.25 millimetres)
texti aðeins á ensku
ALMA observes a giant sunspot (3 millimetres)
ALMA observes a giant sunspot (3 millimetres)
texti aðeins á ensku
ALMA observes the full solar disc
ALMA observes the full solar disc
texti aðeins á ensku
Image of the solar surface alongside a close-up view of a sunspot from ALMA
Image of the solar surface alongside a close-up view of a sunspot from ALMA
texti aðeins á ensku

Myndskeið

ESOcast 92 Light: ALMA Starts Observing the Sun (4K UHD)
ESOcast 92 Light: ALMA Starts Observing the Sun (4K UHD)
texti aðeins á ensku
Comparison of the solar disc in ultraviolet and millimetre wavelength light
Comparison of the solar disc in ultraviolet and millimetre wavelength light
texti aðeins á ensku
Sunspot seen in visible and millimetre wavelength light
Sunspot seen in visible and millimetre wavelength light
texti aðeins á ensku

Samanburður á myndum

Comparison of the solar disc in ultraviolet and millimetre wavelength light
Comparison of the solar disc in ultraviolet and millimetre wavelength light
texti aðeins á ensku