eso1705is — Fréttatilkynning

Geimköttur hittir geimhumar

1. febrúar 2017

Stjörnufræðingar hafa um árabil rannsakað glóandi gas- og rykský í geimnum sem kallast NGC 6334 og NGC 6357. Hér sést nýjasta mynd Very Large Telescope Survey Telescope ESO af þeim. Myndin er nærri tveir milljarðar pixla og er ein sú stærsta sem ESO hefur birt. SKýin eru kölluð Kattarloppuþokan og Humarþokan.

NGC 6334 er í um 5500 ljósára fjarlægð frá Jörðinni en NGC 6357 er öllu fjarlægari eða í 8000 ljósára fjarlægð. Bæði fyrirbæri eru í stjörnumerkinu Sporðdreaknum, nærri oddi hans.

Breski stjörnufræðingurinn John Herschel sá fyrstur manna þokurnar tvær sitt hvort júníkvöldið árið 1836 á meðan könnunarleiðangri hans á Góðrarvonarhöfða í Suður Afríku stóð. Á þeim tíma voru gæði sjónauka ekki ýkja mikil og kom Herschel aðeins auga á bjartasta hluta Kattarloppuþokunnar. Mörgum áratugum síðar kom lögun þokunnar í ljós á ljósmyndum og var henni þá gefið nafnið Kattarloppuþokan.

Loppurnar þrár sem sjást í nútíma sjónaukum, sem og klærnar í Humarþokunni, eru í raun gasský, aðallega úr vetni, sem skært ljós frá nýfæddum stjörnum örvar. Stjörnurnar eru um tífalt efnismeiri en sólin okkar og gefa frá sér sterkt útfjólublátt ljós. Þegar ljósið rekst á vetnisatóm í skýinu jónast vetnið. Þess vegna eru þessi stóru glóandi vetnisgeimský (sem innihalda líka önnur atóm) kölluð ljómþokur.

Myndin sem hér sést var tekin með hinni 256 megapixla OmegaCAM myndavél á Very Large Telescope Survey Telescope (VST). Á henni sjást líka rykslæður sem liggja í gegnum þokurnar tvær. Myndin er 49.511 x 39.136 pixlar og er ein sú stærsta sem ESO hefur birt.

OmegaCAM er arftaki Wide Field Imager (WFI) myndavélarinnar á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum á La Silla. WFI var notuð til að taka mynd af Kattarloppuþokunni árið 2010 í sýnilegu ljósi en með ljóssíu sem dró sérstaklega fram bjarma vetnis (eso1003). Very Large Telescope ESO hefur tekið djúpar myndir af Humarþokunni og séð margar af þeim heitu og björtu stjörnum sem hafa áhrif á lit og lögun þokunnar (eso1226).

Þrátt fyrir einstök greinigæði tækjanna sem notuð voru í þessar athuganir er rykið í þokunum svo þykkt að stór hluti þeirra er okkur hulinn. Kattarloppuþokan er eitt virkasta stjörnumyndunarsvæðið á næturhimninum og hefur alið af sér mörg þúsund ungar, heitar stjörnur sem koma þó ekki fram á myndinni. Innrauðir sjónaukar eins og VISTA sjónauki ESO geta hins vegar skyggnst í gegnum rykið og leitt í ljós stjörnumyndunina sem þar á sér stað.

Þegar þokurnar eru skoðaðar í mismunandi bylgjulengdum ljóss (litum) koma fram mynstur sem breyta útliti þeirra. Í lengri bylgjulengdum ljóss, til dæmis innrauðu, líkist hluti NGC 6357 einna helst dúfu og annar minnir á hauskúpu. Fyrir vikið ber hún líka nafnið Stríð og friður þokan.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1705.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1705is
Nafn:Cat's Paw Nebula, Lobster Nebula
Tegund:Milky Way : Nebula : Appearance : Emission : H II Region
Facility:VLT Survey Telescope
Instruments:OmegaCAM

Myndir

The Cat’s Paw and Lobster Nebulae
The Cat’s Paw and Lobster Nebulae
texti aðeins á ensku
Highlights from VST image of Cat’s Paw and Lobster Nebulae
Highlights from VST image of Cat’s Paw and Lobster Nebulae
texti aðeins á ensku
The star formation regions NGC 6334 and NGC 6357 in the constellation of Scorpius
The star formation regions NGC 6334 and NGC 6357 in the constellation of Scorpius
texti aðeins á ensku

Myndskeið

ESOcast 94 Light: Celestial Cat Meets Cosmic Lobster (4K UHD)
ESOcast 94 Light: Celestial Cat Meets Cosmic Lobster (4K UHD)
texti aðeins á ensku
Zooming in on the Cat’s Paw and Lobster Nebulae
Zooming in on the Cat’s Paw and Lobster Nebulae
texti aðeins á ensku
Panning across the Cat’s Paw and Lobster Nebulae
Panning across the Cat’s Paw and Lobster Nebulae
texti aðeins á ensku