eso1711is — Fréttatilkynning

ALMA sér flugeldasýningu í Óríon

7. apríl 2017

Alla jafna eru stjörnusprengingar tengdar við endalok efnismestu stjarna alheims. Nýjar mælingar frá ALMA veita hins vegar innsýn sprengingar á upphafspunkti lífshlaups stjarna, fæðingu þeirra. Stjörnufræðingar tóku þessar glæsilegu myndir þegar þeir könnuðu sannkallaða flugeldasýningu sem fylgir fæðingu massamikils stjörnuhóps sem sýnir vel hvernig stjörnur springa út þegar þær myndast.

Í 1350 ljósára fjarlægð frá Jörðinni, í stjörnumerkinu Óríon, er þétt og virkt stjörnumyndunarsvæði sem kallast Óríon sameindaský 1(OMC-1) og tilheyrir sama skýi og Sverðþokan fræga. Stjörnur fæðast þegar gasský, mörg hundruð sinnum efnismeiri en sólin, byrja að falla saman undan eigin þyngdarkrafti. Á þéttustu svæðunum kvikna frumstjörnur sem byrja síðan að reka um handahófskennt. Með tímanum byrja sumar stjörnur að falla í átt að sameiginlegri massamiðju, sem inniheldur venjulega sérstaklega stóra frumstjörnu — og ef stjörnurnar gerast nærgöngular áður en þær flýja fæðingastað sinn geta kraftmiklir hlutir gerst.

Fyrir um 100.000 árum tóku nokkrar frumstjörnur að myndast djúpt í Óríon sameindaskýi 1. Þyngdarkrafturinn dró þær saman með sífellt meiri hraða en fyrir um 500 árum komust tvær þeirra í snertingu við hvor aðra. Stjörnufræðingar eru ekki vissir um hvort þær snertust aðeins eða rákust saman en í öllu falli varð öflugt gos í kjölfarið sem skaut öðrum nálægum frumstjörnum og hundruð gas- og rykslæðum út úr þokunni á meira en 150 kílómetra hraða á sekúndu. Við þetta losnaði jafn mikil orka og sólin gefur frá sér á 10 milljón árum.

Fimm hundruð árum síðar notaði hópur stjörnufræðinga undir forystu John Bally (University of Colorado í Bandaríkjunum) Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA) til að skyggnast inn í miðju skýsins. Í ljós komu leifar frá myndun þessara efnismiklu stjarna sem litu út eins og geimútgáfa af flugeldasýningu með stórum efnisflaumum í allar áttir.

Talið er að slíkar sprengingar séu tiltölulega skammlífar og að leifar eins og þær sem hér sjást endist aðeins í örfáar aldir. Þótt það sé skammur tími gætu sprengingar af þessu tagi verið tiltölulega algengar. Atburðir sem þessir gætu hjálpað til við að stýra hraða stjörnumyndunar í risasameindaskýum því þeir geta hreinlega tortímt skýjum.

Vísbendingar um sprengingar í Óríon sameindaskýi 1 komu fyrst fram í mælingum Submillimeter Array á Hawaii árið 2009. Bally og teymi hans hafa einnig rannsakað svæðið í nær-innrauðu ljósi með Gemini South sjónaukanum í Chile og leiddu þær í ljós einstaka uppbyggingu efnisstraumanna sem eru næstum eitt ljósár á lengd.

Nýju myndirnar frá ALMA sýna myndanirnar í hárri upplausn og leiða í ljós mikilvæg smáatriði um dreifingu og hraða kolmónoxíðgass í efnisstraumunum. Það hjálpar stjörnufræðingum að skilja kraftana sem búa að baki spreningunni og hvaða áhrif slíkir atburðir gætu haft á myndun stjarna í Vetrarbrautinni.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, European Extremely Large Telescope eða E-ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

John Bally
University of Colorado, USA
Tölvupóstur: john.bally@Colorado.EDU

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1711.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1711is
Nafn:OMC, Orion Molecular Cloud
Tegund:Milky Way : Nebula : Type : Star Formation
Facility:Atacama Large Millimeter/submillimeter Array
Science data:2017ApJ...837...60B

Myndir

ALMA views a stellar explosion in Orion
ALMA views a stellar explosion in Orion
texti aðeins á ensku
ALMA view of an explosive event in Orion
ALMA view of an explosive event in Orion
texti aðeins á ensku
ALMA and VLT views of an explosion in Orion
ALMA and VLT views of an explosion in Orion
texti aðeins á ensku

Myndskeið

ESOcast 102 Light: Dramatic Stellar Fireworks (4K UHD)
ESOcast 102 Light: Dramatic Stellar Fireworks (4K UHD)
texti aðeins á ensku
Zooming in on an explosive event in Orion
Zooming in on an explosive event in Orion
texti aðeins á ensku
Comparison of the ALMA and VLT views of an explosive event in Orion
Comparison of the ALMA and VLT views of an explosive event in Orion
texti aðeins á ensku