eso1714is — Fréttatilkynning

VISTA skyggnist inn í Litla Magellansskýið

3. maí 2017

Litla Magellansskýið er glæsilegt að sjá með berum augum á himninum yfir suðurhveli Jarðar. Sjónaukar sem nema sýnilegt ljós geta ekki gefið skýra mynd af því sem leynist innan í dvergvetrarbrautinni vegna geimryks. Innrauði sjónaukinn VISTA hefur nú gert stjörnufræðingum kleift að sjá aragrúa stjarna í nágrannavetrarbraut okkar, betur en nokkru sinni fyrr. Útkoman er þessi ljósmynd — stærsta innrauða ljósmynd sem tekin hefur verið af Litla Magellansskýinu — af milljón stjörnum.

Litla Magellansskýið er dvergvetrarbraut, litla systir Stóra Magellansskýsins. Báðar eru nálægustu nágrannavetrarbrautir okkar í geimnum — Stóra Magellansskýið er í um 200.000 ljósára fjarlægð eða einn tólfti af vegalengdinni til Andrómeduvetrarbrautarinnar. Báðar eru óreglulegar að lögun eftir að hafa víxlverkað við hvora aðra og Vetrarbrautina okkar líka.

Nálægðin við Jörðina gerir Magellansskýin að kjörnum viðfangsefnum til að rannsaka myndun og þróun stjarna. Þótt við vitum að dreifing og saga stjörnumyndunar í dvergvetrarbrautum tveimur sé flókin kemur geimryk í veg fyrir að hægt sé að gera nákvæmar mælingar á þeim. Risavaxin ský úr hárfínum rykkornum dreifa og gleypa hluta geislunarinnar sem stjörnurnar geisla frá sér — sérstaklega sýnilegt ljós — en það takmarkar það sem hægt er að sjá með sjónaukum á Jörðinni. Þetta kallast geimdofnun.

Litla Magellansskýið er rykugt og hefur sýnilega ljósið sem stjörnurnar gefa frá sér oft dofnað talsvert. Sem betur fer hefur ryk ekki áhrif á allar gerðir rafsegulgeislunar. Innrauð geislun berst betur í gegnum geimryk en sýnilegt ljós, svo með því að skoða innrauða ljósið frá vetrarbraut getum við lært meira um nýjar stjörnur sem verða til innan í gas- og rykskýjunum.

VISTA (Visible and Infrared Survey Telescope) var hannaður til að rannsaka innrautt ljós. VISTA Survey of the Magellanic Cloud (VMC) beinist að því að kortleggja stjörnumyndunarsögu Stóra og Litla Magellansskýsins, sem og að kortleggja þrívíða uppbyggingu þeirra. Milljónir stjarna í Litla Magellansskýinu hafa verið ljósmyndaðar í innrauðu ljósi þökk sé VMC sem gefur einstaka sýn án áhrifa frá geimdofnun.

Á myndinni eru allar stjörnurnar í Litla Magellansskýinu. Á henni eru einnig þúsundir vetrarbrauta í bakgrunni og nokkrar bjartar stjörnuþyrpingar, þar á meðal 47 Tucanae hægra meginn á myndinni sem er mun nær Jörðu en Litla Magellansskýinu. Þú getur skoðað Litla Magellansskýið í meiri smáatriðum en nokkru sinni fyrr á þessari þysjanlegu mynd.

Myndin er 1,8 gígapixlar (43.223 x 38.236 pixlar) og hefur alþjóðlegur hópur stjörnufræðinga undir forystu Stefano Rubele við Padóvaháskóla rannsakað hana. Bestu líkön sem til eru um þróun stjarna hafa verið notuð og gefið óvæntar niðurstöður.

VMC hefur leitt í ljós að flestar stjörnurnar í Litla Magellansskýinu eru yngri en í mörgum nálægum nágrannavetrarbrautum. Niðurstöður kortlagningarinnar gefa aðeins smjörþefinn af nýjum uppgötvunum sem enn á eftir að gera, því verkefnið heldur áfram að fylla upp í eyður í kortum okkar af Magellansskýjunum.

Frekari upplýsingar

Rannsóknin var kynnt í greininni „The VMC survey – XIV. First results on the look-back time star formation rate tomography of the Small Magellanic Cloud“, í tímaritinu Monthly Notices of the Royal Astronomical Society.

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, Extremely Large Telescope eða ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Maria-Rosa Cioni
Leibniz-Institut für Astrophysik Potsdam (AIP)
Potsdam, Germany
Sími: +49 331 7499 651
Tölvupóstur: mcioni@aip.de

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1714.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1714is
Nafn:Small Magellanic Cloud
Tegund:Local Universe : Galaxy : Type : Irregular
Facility:Visible and Infrared Survey Telescope for Astronomy
Instruments:VIRCAM
Science data:2015MNRAS.449..639R

Myndir

VISTA’s view of the Small Magellanic Cloud
VISTA’s view of the Small Magellanic Cloud
texti aðeins á ensku
Highlights from VISTA's view of the Small Magellanic Cloud
Highlights from VISTA's view of the Small Magellanic Cloud
texti aðeins á ensku
The location of the Small Magellanic Cloud in the constellation of Tucana
The location of the Small Magellanic Cloud in the constellation of Tucana
texti aðeins á ensku

Myndskeið

ESOcast 105 Light: Starstruck by the Small Magellanic Cloud (4K UHD)
ESOcast 105 Light: Starstruck by the Small Magellanic Cloud (4K UHD)
texti aðeins á ensku
A close-up look at VISTA's view of the Small Magellanic Cloud
A close-up look at VISTA's view of the Small Magellanic Cloud
texti aðeins á ensku
Comparison of the Small Magellanic Cloud in infrared and visible light
Comparison of the Small Magellanic Cloud in infrared and visible light
texti aðeins á ensku