eso1723is — Fréttatilkynning

Saga þriggja stjörnuborga

27. júlí 2017

Nýjar mælingar VLT Survey Telescope ESO hafa leitt í ljós þrjár kynslóðir ungstjarna í stjörnuþyrpingunni í Sverðþokunni í Óríon. Þessi óvænta uppgötvun veitir okkur nýja og gagnlega sýn á hvernig stjörnuþyrpingar verða til og bendir til þess, að stjörnur myndist í hrinum þar sem hver hrina stendur yfir í mun skemmri tíma en áður var talið.

OmegaCAM — víðmyndavélin á VLT Survey Telescope (VST) ESO — tók þessa glæsilegu mynd af Sverðþokunni í Óríon og ungri stjörnuþyrpingu sem í henni er. Sverðþokan er eitt nálægasta myndunarsvæði bæði lág- og hámassastjarna í 1300 ljósára fjarlægð [1].

Myndin er meira en bara falleg. Hópur stjörnufræðinga undir forystu Giacomo Beccari hjá ESO notaði gögnin til að mæla nákvæmlega birtu og liti allra stjarnanna í þyrpingunni í Sverðþokunni. Mælingarnar gerðu stjörnufræðingunum kleift að ákvarða massa og aldur stjarnanna. Það kom á óvart að gögnin sýndu þrjár kynslíðir stjarna a mismunandi aldri.

„Að sjá gögnin í fyrsta sinn var eitt af þessum „Vá!“ augnablikum sem gerast aðeins einu sinni eða tvisvar á ævi stjörnufræðings,“ sagði Beccan, aðalhöfundur greinar um rannsóknina. „Myndgæði OmegaCAM sýndu án nokkurs vafa að við sáum þrjár mismunandi kynslóðir stjarna í miðsvæðum Sverðþokunnar.“

„Þetta er mjög merkilegt. Það sem sjáum er að stjörnurnar í þyrpingunni urðu ekki allar til saman og samtímis. Þetta gæti þýtt að breyta þurfi skilningi okkar á því hvernig stjörnur í þyrpingum myndast.“ sagði Monika Petr-Gotzens, meðhöfundur greinarinnar, hjá ESO í Garching.<(p>

Stjörnufræðingar könnuðu vel og vandlega þann möguleika að ástæða þess mismunandi birtustigs og litar, sem veldur því að stjörnurnar lita út fyrir að vera misgamlar, væri sú að sumar hefðu óséða fylgihnetti sem létu stjörnurnar virka bjartari og rauðari en í raun og veru. Hugmyndin gæfi til kynna að fylgistjörnurnar hefðu óvenjulega eiginleika sem aldrei hafa sést áður. Aðrar mælingar á stjörnunum, eins og snúningshraði þeirra og litróf, bentu líka til þess að þær væru misgamlar [2].

„Þótt við getum ekki enn útilokað þann möguleika að þessar stjörnur séu tvístirni er auðveldara að viðurkenna að það sem við sjáum séu í raun þrjár kynslóðir stjarna sem mynduðust hver á eftir annarri á innan við þremur milljónum ára,“ sagði Beccari að lokum.

Niðurstöðurnar benda sterklega til þess að stjörnumyndun í Sverðþokunni komi í hrinnum og hraðar en áður var talið.

Skýringar

[1] Sjónaukar ESO hafa tekið margar aðrar myndir Sverðþokunni, þar á meðal 2,2 metra MPG/ESO sjónaukinn (eso1109) af sýnilegu ljósi og VISTA (eso1701) og HAWK-I mælitækið á Very Large Telescope (eso1625) af innrauðu ljósi.

[2] Hópurinn komst einnig að því að hver kynslóð snerist mishratt — yngstu stjörnurnar snerust hraðast en elstu hægast. Í þessari sviðsmynd hafa kynslóðirnar myndast hratt hver á eftir annarri, innan þriggja milljón ára.

Frekari upplýsingar

Skýrt er frá rannsókninni í greininni „A Tale of Three Cities: OmegaCAM discovers multiple sequences in the color­ magnitude diagram of the Orion Nebula Cluster,“ eftir G. Beccari og samstarfsfólk sem birtist í tímaritinu Astronomy & Astrophysics.

Í rannsóknarteyminnu eru G. Beccari, M.G. Petr-Gotzens og H.M.J. Boffin (ESO, Garching bei München, Þýskalandi), M. Romaniello (ESO; Excellence Cluster Universe, Garching bei München, Þýskalandi), D. Fedele (INAF-Osservatorio Astrofisico di Arcetri, Firenze, Ítalíu), G. Carraro (Dipartimento di Fisica e Astronomia Galileo Galilei, Padova, Ítalíu), G. De Marchi (Science Support Office, European Space Research and Technology Centre (ESA/ESTEC), Hollandi), W.J. de Wit (ESO, Santiago, Chile), J.E. Drew (School of Physics, University of Hertfordshire, Bretlandi), V.M. Kalari (Departamento de Astronomía, Universidad de Chile, Santiago, Chile), C.F. Manara (ESA/ESTEC), E.L. Martin (Centro de Astrobiologia (CSIC-INTA), Madrid, Spáni), S. Mieske (ESO, Chile), N. Panagia (Space Telescope Science Institute, Bandaríkjunum); L. Testi (ESO, Garching); J.S. Vink (Armagh Observatory, Bretlandi); J.R. Walsh (ESO, Garching); og N.J. Wright (School of Physics, University of Hertfordshire; Astrophysics Group, Keele University, Bretlandi).

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, Extremely Large Telescope eða ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Giacomo Beccari
ESO
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6195
Tölvupóstur: gbeccari@eso.org

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1723.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1723is
Nafn:Orion Nebula
Tegund:Milky Way : Nebula : Appearance : Emission : H II Region
Facility:VLT Survey Telescope
Instruments:OmegaCAM
Science data:2017A&A...604A..22B

Myndir

The Orion Nebula and cluster from the VLT Survey Telescope
The Orion Nebula and cluster from the VLT Survey Telescope
texti aðeins á ensku
The jewel in Orion’s sword
The jewel in Orion’s sword
texti aðeins á ensku
The Orion Nebula showing three populations of young stars
The Orion Nebula showing three populations of young stars
texti aðeins á ensku

Myndskeið

ESOcast 118 Light: A Tale of Three Stellar Cities (4K UHD)
ESOcast 118 Light: A Tale of Three Stellar Cities (4K UHD)
texti aðeins á ensku
Zooming in on the Orion Nebula
Zooming in on the Orion Nebula
texti aðeins á ensku
Panning across the Orion Nebula
Panning across the Orion Nebula
texti aðeins á ensku

Sjá einnig