eso1734is — Fréttatilkynning

Leyndardómar vetrarbrauta afhjúpaðir

25. október 2017

Ótal vetrarbrautir, sumar stórar í forgrunni, aðrar smáar í bakgrunni, prýða þessa fallegu mynd af Ofnþyrpingunni. Ein þeirra, linsulaga vetrarbrautin NGC 1316, á sér órólega fortíð sem sést á slæðum og hringjum sem stjörnufræðingar hafa nú séð í meiri smáatriðum en áður, þökk sé VLT Survey Telescope. Þessi djúpa mynd leiðir líka í ljós fjölda daufra fyrirbæra innan um daufan ljósbjarma í þyrpingunni.

Þessi djúpa mynd sýnir nokkrar bjartar vetrarbrautir í Ofnþyrpingunni, einni nálægustu vetrarbrautaþyrpingu við Vetrarbrautina okkar, en hún var tekin með VLT Survey Telescope (VST) í Paranal stjörnustöð ESO í Chile.

Ein áhugaverðasta vetrarbrautin í þyrpingunni er NGC 1316. Saga hennar er býsna dramatísk því hún varð til við samruna margra smærri vetrarbrauta. Í fortíðinni afmyndaði þyngdarkrafturinn vetrarbrautina og skildi eftir sig ör í linsulaga útliti hennar [1]. Stórar þéttibylgjur, lykkjur og bogar í ytri hjúpi hennar sáust fyrst upp úr 1970 en stjörnufræðingar nota enn nýjustu sjónauka, mælitæki og líkön til þess að rannsaka þessar myndanir í NGC 1316 í smáatriðum.

Samrunarnir sem mynduðu NGC 1316 leiddu til innflæðis gass sem nærir framandi fyrirbæri í miðjunni: Risasvarthol sem er um 150 milljón sinnum efnismeira en sólin. Þegar svartholið dregur til sín massa úr umhverfi sínu myndast miklir og öflugir háorkustrókar sem streyma burt frá því og mynda einkennandi útgeislunarsepa sem koma fram í útvarpsbylgjum og gera NGC 1316 að fjórðu björtustu útvarpslindinni á himninum.

Í NGC 1316 hafa fundist fjórar sprengistjörnur af gerðinni Ia. Þær eru stjörnufræðingum mjög mikilvægar því þær hafa alltaf mjög ákveðna birtu [2] svo hægt er að nota þær til að mæla fjarlægðina til móðurvetrarbrautarinnar sem, í þessu tilviki, er 60 milljón ljósár. Þessi „staðalkerti“ eru mjög eftirsótt því þau eru mjög áreiðanleg tæki til þess að mæla vegalengdir til fjarlægra vetrarbrauta. Sprengistjörnurnar léku einmitt lykilhlutverk í þeirri uppgötvun að alheimurinn þenst út með sívaxandi hraða.

Myndin var tekin með VST sjónaukanum í Paranal stjörnustöð ESO fyrir Fornax Deep Survey verkefnið en það snýst um að taka djúpar myndir af Ofnþyrpingunni. Hópurinn, sem er undir forystu Enrichetta Iodice við INAF (Osservatorio di Capodimonte í Napolí á Ítalíu), hafði áður tekið myndir af svæðinu með VST og komið auga á daufa ljósbrú milli NGC 1399 og smærri vetrarbrautar, NGC 1387 (eso1612). VST var sérstaklega hannaður til að gera yfirgripsmikil kortlagningarverkefni. Fyrir vikið hefur sjónaukinn mjög vítt sjónsvið fyrir 256 megapixla myndavél, OmegaCAM. Þess vegna getur VST tekið djúpar myndir af stórum svæðum á himninum mun hraðar en margir aðrir stærri sjónaukar — eins og Very Large Telescope (VLT) ESO — sem kanna fyrirbærin í meiri smáatriðum.

Skýringar

[1] Linsulaga vetrarbrautir eru millistig milli sporvöluvetrarbrauta og þyrilvetrarbrauta eins og Vetrarbrautarinnar okkar.

[2] Sprengistjarna af gerð Ia verður til þegar hvítur dvergur í tvístirnakerfi hefur sankað að sér massa frá fylgistjörnunni. Þegar tilteknum mörkum er náð verður kjarnasamruni kolefnis sem leiðir til keðjuverkunnar á örskammri stundu svo stjarnan springur í tætlur. Stjörnurnar springa alltaf þegar tilteknum massa er náð, svokölluðum Chandrasekhar-mörkum, og því eru sprengingarnar næstum alltaf alveg eins. Þess vegna geta stjörnufræðingar notað þessa sömu gerð sprengistjarna í fjarlægum vetrarbrrautum til að mæla vegalengdir í geimnum.

Frekari upplýsingar

Skýrt var frá rannsókninni í greininni „The Fornax Deep Survey with VST. II. Fornax A: A Two-phase Assembly Caught in the Act“, eftir E. Iodice o.fl., í tímaritinu Astrophysical Journal.

Í rannsóknarteyminu eru E. Iodice (INAF – Astronomical Observatory of Capodimonte, Ítalíu), M. Spavone (Astronomical Observatory of Capodimonte, Ítalíu), M. Capaccioli (University of Naples, Ítalíu), R. F. Peletier (Kapteyn Astronomical Institute, University of Groningen, Hollandi), T. Richtler (Universidad de Concepción, Chile), M. Hilker (ESO, Garching, Þýskalandi), S. Mieske (ESO, Chile), L. Limatola (INAF – Astronomical Observatory of Capodimonte, Ítalíu), A. Grado (INAF – Astronomical Observatory of Capodimonte, Ítalíu), N.R. Napolitano (INAF – Astronomical Observatory of Capodimonte, Ítalíu), M. Cantiello (INAF – Astronomical Observatory of Teramo, Ítalíu), R. D’Abrusco (Smithsonian Astrophysical Observatory/Chandra X-ray Center, Bandaríkjunum), M. Paolillo (University of Naples, Ítalíu), A. Venhola (University of Oulu, Finnlandi), T. Lisker (Zentrum für Astronomie der Universität Heidelberg, Þýskalandi), G. Van de Ven (Max Planck Institute for Astronomy, Þýskalandi), J. Falcon-Barroso (Instituto de Astrofísica de Canarias, Spáni) og P. Schipani (Astronomical Observatory of Capodimonte, ítalíu).

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, Extremely Large Telescope eða ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Enrichetta Iodice
INAF – Osservatorio Astronomico di Capodimonte
Napoli, Italy
Sími: +39 0815575546
Tölvupóstur: iodice@na.astro.it

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1734.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1734is
Nafn:NGC 1316
Tegund:Local Universe : Galaxy : Type : Lenticular
Facility:VLT Survey Telescope
Instruments:OmegaCAM
Science data:2017ApJ...839...21I

Myndir

Revealing the galactic secrets of NGC 1316
Revealing the galactic secrets of NGC 1316
texti aðeins á ensku
Vetrarbrautaparið NGC 1316 og NGC 1317 í stjörnumerkinu Ofninum
Vetrarbrautaparið NGC 1316 og NGC 1317 í stjörnumerkinu Ofninum
Víðmynd af himninum í kringum vetrarbrautirnar NGC 1316 og 1317
Víðmynd af himninum í kringum vetrarbrautirnar NGC 1316 og 1317
Annotated view of the sky surrounding NGC 1316
Annotated view of the sky surrounding NGC 1316
texti aðeins á ensku

Myndskeið

ESOcast 134 Light: Revealing Galactic Secrets (4K UHD)
ESOcast 134 Light: Revealing Galactic Secrets (4K UHD)
texti aðeins á ensku
Zooming in on the galaxy NGC 1316
Zooming in on the galaxy NGC 1316
texti aðeins á ensku
Panning across the galaxy NGC 1316
Panning across the galaxy NGC 1316
texti aðeins á ensku