eso1737is — Fréttatilkynning

Sjónaukar ESO sýna að fyrsta millistjörnusmástirnið er einstakt

VLT leiðir í ljós dökkrautt og mjög ílangt fyrirbæri

20. nóvember 2017

Stjörnufræðingar hafa í fyrsta sinn rannsakað smástirni sem kom inn í sólkerfið okkar utan úr geimnum milli stjarnanna. Mælingar Very Large Telescope ESO í Chile og fleiri sjónauka víða um heim sýna, að þetta einstaka fyrirbæri hafði ferðast um geiminn í milljónir ára áður en það rambaði fyrir tilviljun inn í sólkerfið okkar. Smástirnið virðist vera dökkrautt, mjög ílangt, málm- eða bergkennt og ólíkt öllu öðru sem finnst í sólkerfinu okkar. Niðurstöðurnar eru birtar í tímaritinu Nature hinn 20. nóvember 2017.

Hinn 19. október 2017 fann Pan-STARRS 1 sjónaukinn á Hawaii daufan ljósdepil sem ferðaðist hratt yfir himinhvolfið. Í fyrstu leit það út eins og hvert annað hraðfleygt smástirni þangað til braut þess var reiknuð út. Þá kom í ljós að smástirnið átti ekki rætur að rekja til sólkerfisins okkar, eins og öll önnur smástirni og halastjörnur sem hafa fundist, heldur úr geimnum milli stjarnanna. Fyrirbærið var í fyrstu talið halastjarna en mælingar ESO og fleiri sjónauka sýndu enga halastjörnuvirkni eftir að það fór framhjá sólinni í september 2017. Fyrirbærið var þá flokkað sem millistjörnusmástirni og gefið nafnið 1I/2017 U1 (‘Oumuamua) [1].

„Við urðum að bregðast hratt við,“ útskýrir Olivier Hainaut, stjörnufræðingur hjá ESO í Garching í Þýskalandi. „’Oumuamua hafði þegar farið framhjá sólinni og var á leið aftur út úr sólkerfinu.“

Very Large Telescope ESO var beint að fyrirbærinu þegar í stað til að mæla braut þess, birtu og lit betur en smærri sjónaukar gátu. Nauðsynlegt var að hefja mælingar strax því ‘Oumuamua dofnaði hratt þegar það fjarlægðist sólina og Jörðina. Fleira óvænt átti eftir að koma í ljós.

Myndir sem teknar voru í gegnum fjórar mismunandi síur með FORS mælitækinu á VLT og öðrum sjónaukum sýndi stjörnufræðingum undir forystu Karen Meech (Institut for Astonomy, Hawaii, Bandaríkjunum) að birta ‘Oumuamua sveiflast mikið þegar það snýst einu sinni um sjálft sig á 7,3 klukkustundum.

„Þessi óvenju mikla birtusveifla þýðir að fyrirbærið er mjög ílangt: Lengdin er tíu sinnnum meiri en breiddin en lögunin er flókin og undin,“ útskýrir Karen Meech. „Við komumst líka að því að það dökkrautt á litinn, svipað fyrirbærum í ytra sólkerfinu og staðfestum að það er algerlega óvirkt. Við fundum ekki nokkur einustu merki um ryk í kringum það.“

Þetta bendir til þess að ‘Oumuamua sé þétt í sér, líklega úr bergi eða innihaldi mikið af málmum, skorti verulega vatn eða ís og að yfirborðið hafi dökknað og roðnað vegna áhrifa geimgeisla í milljónir ára. Talið er að fyrirbærið sé að minnsta kosti 400 metra langt.

Fyrstu útreikningar á braut smástirnisins bentu til þess að það kæmi úr sömu átt og stjarnan Vega í stjörnumerkinu Hörpunni er á himinhvolfinu. Þótt smástirnið hafi ferðast á 95.000 km hraða á klukkustund var Vega hvergi nálægt því svæði fyrir 300.000 árum þegar það var þar. ‘Oumuamua gæti því hafa flakkað um Vetrarbrautina óháð nokkru öðru sólkerfi í hundruð milljónir ára áður en það rambaði á sólkerfið okkar.

Stjörnufræðingar áætla að millistjörnusmástirni eins og ‘Oumuamua ættu að koma inn í innra sólkerfið okkar um það bil einu sinni á ári. Þau eru hins vegar svo dauf að erfitt er að greina þau og hafa þess vegna ekki fundist fyrr en nú. Stutt er síðan kortlagningarsjónaukar eins og Pan-STARRS urðu nógu öflugir til þess að geta komið auga á fyrirbæri af þessu tagi.

„Við höldum áfram að rannsaka þetta einstaka fyrirbæri,“ sagði Olivier Hainaut, „og við vonumst til að geta fundið út með meiri nákvæmni hvaðan fyrirbærið kom og hvert för þess er heitið næst á ferðalagi sínu um Vetrarbrautina. Og nú þegar við höfum fundið fyrsta millistjörnugrjótið bíðum við spennt eftir næstu!“

Skýringar

[1] Nafnatillaga stjörnufræðinga við Pan-STARRS var samþykkt af Aljóðasambandi stjarnfræðinga en það sér um að gefa fyrirbærum í sólkerfinu okkar og utan þess nöfn. Nafnið er hawaiiískt að uppruna og er hægt að lesa sér betur til um það hér. Alþjóðasamband stjarnfræðinga bjó líka til nýjan flokk fyrirbæra fyrir millistjörnusmástirni og var þetta fyrirbæri hið fyrsta sem rataði í hann. Formleg heiti fyrirbærisins eru því: 1I, 1I/2017 U1, 1I/‘Oumuamua og 1I/2017 U1 (‘Oumuamua). Athugaðu að táknið fyrir framan O-ið er það sem kallast okina á hawaiiísku. Því ætti að bera nafnið fram með H-hljóði, þ.e. H O u mu a mu a. Áður en nýja nafnakerfið var tekið upp var fyrirbærið kallað A/2017 U1.

Skýrt er frá rannsókninni í greininni „A brief visit from a red and extremely elongated interstellar asteroid”, eftir K. Meech o.fl, sem birtist í tímaritinu Nature hinn XXX.

Frekari upplýsingar

Í rannsóknarteyminu eru Karen J. Meech (Institute for Astronomy, Honolulu, Hawai`i, Bandaríkin [IfA]) Robert Weryk (IfA), Marco Micheli (ESA SSA-NEO Coordination Centre, Frascati, Ítalíu; INAF–Osservatorio Astronomico di Roma, Monte Porzio Catone, Ítalíu), Jan T. Kleyna (IfA) Olivier Hainaut (ESO, Garching, Þýskalandi), Robert Jedicke (IfA) Richard J. Wainscoat (IfA) Kenneth C. Chambers (IfA) Jacqueline V. Keane (IfA), Andreea Petric (IfA), Larry Denneau (IfA), Eugene Magnier (IfA), Mark E. Huber (IfA), Heather Flewelling (IfA), Chris Waters (IfA), Eva Schunova-Lilly (IfA) og Serge Chastel (IfA).

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, Extremely Large Telescope eða ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Olivier Hainaut
ESO
Garching, Germany
Sími: +49 89 3200 6752
Tölvupóstur: ohainaut@eso.org

Karen Meech
Institute for Astronomy
Honolulu, Hawai`i, USA
Farsími: +1-720-231-7048
Tölvupóstur: meech@IfA.Hawaii.Edu

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1737.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1737is
Nafn:1I/2017 U1 (‘Oumuamua)
Tegund:Milky Way : Interplanetary Body : Asteroid
Facility:Very Large Telescope
Instruments:FORS2
Science data:2017Natur.552..378M

Myndir

Artist’s impression of the interstellar asteroid `Oumuamua
Artist’s impression of the interstellar asteroid `Oumuamua
texti aðeins á ensku
Combined deep image of `Oumuamua from the VLT and other telescopes (annotated)
Combined deep image of `Oumuamua from the VLT and other telescopes (annotated)
texti aðeins á ensku
The Orbit of ‘Oumuamua
The Orbit of ‘Oumuamua
texti aðeins á ensku
Combined deep image of ‘Oumuamua from the VLT and other telescopes (unannotated)
Combined deep image of ‘Oumuamua from the VLT and other telescopes (unannotated)
texti aðeins á ensku
Artist’s impression of the interstellar asteroid `Oumuamua
Artist’s impression of the interstellar asteroid `Oumuamua
texti aðeins á ensku
Light curve of interstellar asteroid `Oumuamua
Light curve of interstellar asteroid `Oumuamua
texti aðeins á ensku

Myndskeið

ESOcast 138 Light: VLT Discovers First Interstellar Asteroid is like Nothing Seen Before (4K UHD)
ESOcast 138 Light: VLT Discovers First Interstellar Asteroid is like Nothing Seen Before (4K UHD)
texti aðeins á ensku
Animation of `Oumuamua passing through the Solar System
Animation of `Oumuamua passing through the Solar System
texti aðeins á ensku
Animation of `Oumuamua passing through the Solar System (annotated)
Animation of `Oumuamua passing through the Solar System (annotated)
texti aðeins á ensku
Animation of artist's concept of `Oumuamua
Animation of artist's concept of `Oumuamua
texti aðeins á ensku