eso1803is — Fréttatilkynning

ExTrA reikistjörnuleitartækin tekin í notkun á La Silla

24. janúar 2018, Hafnarfjordur

Nýr ríkissjónauki hefur verið tekinn í noktun í La Silla stjörnustöð ESO í Chile. ExTrA sjónaukarnir eiga að leita að og rannsaka reikistjörnur á stærð við Jörðina í kringum nálægar rauðar dvergstjörnur. Nýstárleg hönnun ExTrA gefur mun betri greinigæði en eldri rannsóknartæki hafa verið fær um. Stjörnufræðingar búa nú yfir nýju og öflugu tæki sem hjálpar til við leitina að mögulega lífvænlegum reikistjörnum utan sólkerfisins.

Fyrstu mælingarnar hafa verið gerðar með nýjustu viðbótinni í La Silla stjörnustöð ESO í norðurhluta Chile, Exoplanets in Transit and their Atmospheres (ExTrA). ExTrA á að leita að reikistjörnum í kringum nálægar rauðar dvergstjörnur og rannsaka eiginleika þeirra. ExTrA er franskt verkefni fjármagnað af evrópska rannsóknarráðinu og franska rannsóknarráðinu. Sjónaukunum verður stýrt frá Grenoble í Frakllandi.

ExTrA er samansettur af þremur 0,6 metra breiðum sjónaukum sem eiga að leita að og rannsaka fjarreikistjörnur [1]. Þeir fylgjast reglulega með ljósi sem berst frá rauðum dvergstjörnum og leita að örlítilli birtuminnkun sem rekja má til þess að reikistjarna gangi fyrir stjörnu og skyggir á ljósið tímabundið.

„La Silla varð fyrir valinu sem heimili sjónaukanna vegna þeirra framúrskarandi veðuraðstæðna sem þar ríkja,“ útskýrir verkefnisstjórinn Xavier Bonfils. „Lofthjúpurinn okkar gleypir auðveldlega það ljós sem við nemum — nær-innrautt — svo við þurfum þurrustu og dimmustu aðstæður sem mögulegar eru. La Silla hentar fullkomlega til þess.“

Með þvergöngumælingum er fylgst með því þegar birtustig stjörnu breytist þegar reikistjarna gengur fyrir hana tímabundið. Erfitt er að gera þessar nákvæmu mælingar frá yfirborði jarðar því birtuminnkunin af völdum reikistjarna á stærð við Jörðina er agnarsmá [2]. Með nýstárlegri aðferð, sem felur í sér að safna upplýsingum um birtustig stjarna í mörgum mismunandi litum, getur ExTrA yfirstigið sumar takmarkanirnar.

ExTrA sjónaukarnir þrír safna ljósi frá stjörnunni sem verið er að rannsaka og fjórum samanburðarstjörnum. Síðan er ljósinu beint í gegnum ljósleiðara og inn í litrófsrita. Þessi aðferð bætir litrófsupplýsingum við hefðbundnar ljósmælingar og hjálpar til við að draga úr truflandi áhrifum lofthjúps Jarðar, sem og áhrifum frá mælitækjunum og nemunum sjálfum sem aftur eykur nákvæmni mælinganna.

Reikistjörnur á þvergöngu hylja meira ljós frá minni stjörnum en smærri svo leit ExTrA beinist að litlum og nálægum stjörnum sem kallast M-dvergar en það eru algengustu stjörnurnar í Vetrarbrautinni. Talið er að slíkar stjörnur hafi margar reikistjörnur á stærð við Jörðina og teljast því heppileg rannsóknarefni stjörnufræðinga sem leita að lífvænlegum reikistjörnum. Proxima Centauri, nálægasta stjarnan við sólina okkar, er M-dvergur og hefur komið í ljós að um hana gengur reikistjarna á stærð við Jörðina.

Að finna fjarreikistjörnur af þessu tagi er eitt af tveimur lykilmarkmiðum ExTrA. Sjónaukinn mun líka rannsaka pláneturnar sem hann finnur þónokkuð náið, til að mynda reyna að meta eiginleika þeirra og ákvarða samsetningu svo finna megi út hversu mikið þær gætu líkst Jörðinni.

„Með ExTrA getum við líka svarað nokkrum grundvallarspurningum um plánetur í Vetrarbrautinni okkar. Við vonumst til að finna út hversu algengar þessar plánetu eru, hegðun fjölhnatta sólkerfa og fá upplýsingar um þær umhverfisaðstæður sem leiða til myndunar þeirra,“ bætir Jose-Manuel Almenara, meðlimur í hópnum, við.

Bonfils hlakkar til framtíðarinnar: „Með næstu kynslóð sjónauka, eins og Extremely Large Telescope ESO, getum við rannsakað lofthjúpa fjarreikistjarnanna sem ExTrA finnur og reynt þar með að meta hvort þessir hnettir séu lífvænlegir. Rannsóknir á fjarreikistjörnum eru að gera vísindaskáldskap að veruleika.“

Skýringar

[1] Sjónaukarnir og stæðin þeirra koma frá Astrosysteme Austria, hvolfþökin frá pólska fyrirtækinu ScopeDome og innrauða myndavélin frá bandaríska fyrirtækinu Princeton Instrument en neminn er frá belgíska fyrirtækinu Xenics. Hér má nálgast frekari upplýsingar um búnaðinn.

[2] Þessi aðferð, sem kallast mismunaljósmælingar, felur í sér að rannsaka tiltekna stjörnu og aðrar nálægar stjörnur. Með því að leiðrétta sveiflur og skekkjur sem koma fram í ljósi allra stjarnanna vegna ókyrrðar í lofthjúpi Jarðar, nást nákvæmari mælingar á viðfangsefninu. Á móti kemur að birtuminnkun reikistjarna á stærð við Jörðina er svo lítil að þessi tækni dugir jafnvel ekki alltaf til.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Brasilíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, Extremely Large Telescope eða ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Iceland
Farsími: +3548961984
Tölvupóstur: saevarhb@gmail.com

Xavier Bonfils
Institut de Planétologie et d'Astrophysique de Grenoble (IPAG)/CNRS/Université Grenoble Alpes
Grenoble, France
Sími: +33 47 6514 789
Tölvupóstur: xavier.bonfils@univ-grenoble-alpes.fr

Richard Hook
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: rhook@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1803.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1803is
Nafn:Exoplanets in Transits and their Atmospheres
Tegund:Unspecified : Technology : Observatory : Facility
Facility:Exoplanets in Transits and their Atmospheres

Myndir

The ExTrA telescopes at La Silla
The ExTrA telescopes at La Silla
texti aðeins á ensku
The ExTrA telescopes at La Silla
The ExTrA telescopes at La Silla
texti aðeins á ensku
The ExTrA telescopes at La Silla
The ExTrA telescopes at La Silla
texti aðeins á ensku
The ExTrA telescopes at La Silla
The ExTrA telescopes at La Silla
texti aðeins á ensku
The ExTrA telescopes at La Silla
The ExTrA telescopes at La Silla
texti aðeins á ensku
The ExTrA telescopes at La Silla
The ExTrA telescopes at La Silla
texti aðeins á ensku

Myndskeið

ESOcast 147 Light: First Light for Planet Hunter ExTrA at La Silla (4K UHD)
ESOcast 147 Light: First Light for Planet Hunter ExTrA at La Silla (4K UHD)
texti aðeins á ensku
Time-lapse video sequence of the ExTrA planet-hunting facility at La Silla
Time-lapse video sequence of the ExTrA planet-hunting facility at La Silla
texti aðeins á ensku
Time-lapse video sequence of the ExTrA planet-hunting facility at La Silla
Time-lapse video sequence of the ExTrA planet-hunting facility at La Silla
texti aðeins á ensku
Time-lapse video sequence of the ExTrA planet-hunting facility at La Silla
Time-lapse video sequence of the ExTrA planet-hunting facility at La Silla
texti aðeins á ensku

Sjá einnig