eso1827is — Fréttatilkynning

Glæsilegar sporvölur

8. ágúst 2018

Á þessari mynd, sem tekin var með VLT Survey Telescope ESO, fyrsta flokks 2,6 metra sjónauka sem hannaður er til að kortleggja himinninn í sýnilegu ljósi, sést fjöldinn allur af glitrandi vetrarbrautum í órafjarlægð. Stjörnufræðingar nota myndir eins og þessa til að rannsaka uppbyggingu vetrarbrauta af ýmsu tagi.

Very Large Telescope (VLT) ESO er svo stór að hann getur séð smáatriði í mjög daufum fyrirbærum. En þegar stjörnufræðingar vilja skilja hvernig mikill fjöldi vetrarbrauta myndaðist og þróaðist verða þeir að beina annars konar sjónauka með mun víðara sjónsvið til himins. VLT Survey Telescope (VST) er dæmi um slíkan sjónauka. Hann var hannaður til að rannsaka víðfeðm svæði á himninum yfir Chile svo stjörnufræðingar gætu gert djúpa kortlagningu af suðurhveli himins.

Alþjóðlegt teymi stjörnufræðinga nýtti þennan framúrskarandi sjónauka í VST Early-type GAlaxy Survey (VEGAS) [1], kortlagningarverkefni sem snýst um að rannsaka hóp sporvöluvetrarbrauta á suðurhveli himins [2]. Marilena Spavone frá INAF-Astronomical Observatory of Capodimonte í Napolí á Ítalíu stýrði rannsóknunum og notaði hópur hennar OmegaCAM myndavélina í VST til að taka myndir af slíkum vetrarbrautum á mismunandi tímum í sögu alheimsins [3].

Ein þeirra er NGC 5018, mjólkurhvít vetrarbraut nálægt miðri mynd. Hún er í stjörnumerkinu Meyjunni og virðist við fyrstu sýn lítið annað en daufur þokuhnoðri. En þegar betur er að gáð sést þunnur straumur stjarna og gass – flóðhali – liggja frá sporvölunni. Flóðhalar og stjörnustraumar sem þessir eru einkennandi fyrir samruna vetrarbrauta og veita vísbendingar um uppbyggingu og víxlverkanir milli vetrarbrauta.

Að sporvölum og nokkrum þyrilvetrarbrautum undanskildum er fjöldinn allur af stjörnum í forgrunni sem tilheyra Vetrarbrautinni okkar á þessari mögnuðu 400 megapixla ljósmynd. Þeirra á meðal er bláa stjarnan HD 114746, nálægt miðri mynd, en hvorki hún né hinar stjörnurnar eru viðfangsefni rannsóknanna, heldur einfaldlega í sömu sjónlínu og vetrarbrautirnar fjarlægu. Einnig er hægt að greina daufar rákir eftir smástirni í sólkerfinu okkar. Rétt fyrir neðan NGC 5018 sést til að mynda slóð smástirnisins 2001 TJ21 (110423). Rákin er slitrótt vegna þess að myndir voru teknar með nokkru millibili. Lengra til hægri er annað smástirni – 2000 WU69 (98603).

Þótt stjörnufræðingarnir hafi lagt upp með að rannsaka vetrarbrautir í milljóna ljósára fjarlægð, þá rata stundum inna á myndirnar stjörnur í aðeins nokkur hundruð ljósára fjarlægð og smástirni í sólkerfinu okkar í nokkurra ljósmínútna fjarlægð. Sjónaukar ESO og himinninn yfir Chile eru af slíkum gæðum að þótt mælingar snúist fyrist og fremst um fyrirbæri í órafjarlægð, þá geta mælingarnar stundum leitt í ljós forvitnileg fyrirbæri nær heimkynnum okkar.

Skýringar

[1] VEGAS er djúpkortlagningarverkefni af frumstæðum vetrarbrautum, gert á ýmsum bylgjulengdum, með VLT Survey Telescope (VST). Verkefnisstjóri er Enrichetta Iodice frá INAF-Astronomical Observatory of Capodimonte í Napolí á Ítalíu.

[2] Sporvöluvetrarbrautur eru frumstæðar vetrarbrautir, ekki sökum aldurs heldur vegna þess að eitt sinn var talið að þær ættu eftir að þróast í þyrilvetrarbrautir. Sú hugmynd reyndist ekki á rökum reist. Frumstæðar vetrarbrautar einkennast af mjúkri sporvölulögun og skort á gasi og virkri stjörnumyndun. Vetrarbrautir eru flokkaðar eftir lögun og tegund samkvæmt Hubbleskvíslinni.

[3] OmegaCAM er einstaklega næm myndavél sem er sett saman úr 32 stökum CCD-myndflögum. Myndavélin tekur myndir í 256 milljón pixla upplausn, 16 sinnum hærri en Advanced Camera for Surveys (ACS) á Hubble geimsjónauka NASA og ESA. OmegaCAM var smíðuð og hönnuði í samstarfi stofnana í Hollandi, Þýskalandi og Ítalíu en ESO lagði einnig sitt af mörkum.

Frekari upplýsingar

Greint er frá rannsókninni í greininni „VEGAS: A VST Early-type GAlaxy Survey. III. Mapping the galaxy structure, interactions and intragroup light in the NGC 5018 group“ eftir Marilena Spavone o.fl., sem birtist í Astrophysical Journal.

Í rannsóknarteyminu eru Marilena Spavone (INAF-Astronomical Observatory of Capodimonte, Naples, Ítalíu), Enrichetta Iodice (INAF-Astronomical Observatory of Capodimonte, Naples, Ítalíu), Massimo Capaccioli (University of Naples, Naples, Ítalíu), Daniela Bettoni (INAF-Astronomical Observatory of Padova, Ítalíu), Roberto Rampazzo (INAF-Astronomical Observatory of Padova, Italy), Noah Brosch (The Wise Observatory and School of Physics and Astronomy Tel Aviv University, Ísrael), Michele Cantiello (INAF-Astronomical Observatory of Teramo, Ítalíu), Nicola R. Napolitano (INAF-Astronomical Observatory of Capodimonte, Naples, Ítalíu), Luca Limatola (INAF-Astronomical Observatory of Capodimonte, Naples, Ítalíu), Aniello Grado (INAF-Astronomical Observatory of Capodimonte, Naples, Ítalíu), Pietro Schipani (INAF-Astronomical Observatory of Capodimonte, Naples, Ítalíu).

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, Extremely Large Telescope eða ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Marilena Spavone
INAF – Osservatorio Astronomico di Capodimonte
Napoli, Italy
Sími: +39 081 5575602
Tölvupóstur: marilena.spavone@oacn.inaf.it

Mariya Lyubenova
ESO Outreach Astronomer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6188
Tölvupóstur: mlyubeno@eso.org

Calum Turner
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6670
Tölvupóstur: pio@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1827.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1827is
Nafn:NGC 5018
Tegund:Early Universe : Galaxy : Type : Elliptical
Facility:VLT Survey Telescope
Instruments:OmegaCAM
Science data:2018ApJ...864..149S

Myndir

Elliptical elegance
Elliptical elegance
texti aðeins á ensku
Annotated view of the sky surrounding NGC 5018
Annotated view of the sky surrounding NGC 5018
texti aðeins á ensku
Wide-field view of the surroundings of  NGC 5018
Wide-field view of the surroundings of NGC 5018
texti aðeins á ensku
NGC 5018 in the constellation of Virgo
NGC 5018 in the constellation of Virgo
texti aðeins á ensku
Digitized Sky Survey image around the galaxy NGC 5018 in the constellation of Virgo
Digitized Sky Survey image around the galaxy NGC 5018 in the constellation of Virgo
texti aðeins á ensku

Myndskeið

ESOcast 174 Light: Elliptical Elegance (4K UHD)
ESOcast 174 Light: Elliptical Elegance (4K UHD)
texti aðeins á ensku
Zooming into NGC 5018
Zooming into NGC 5018
texti aðeins á ensku
Panning across NGC 5018 and its surroundings
Panning across NGC 5018 and its surroundings
texti aðeins á ensku