eso1830is — Fréttatilkynning

Vetrarbrautarperla

FORS2 mælitæki ESO tekur glæsilega mynd af þyrilvetrarbrautinni NGC 3981

12. september 2018

Á þessari mynd FORS2 mælitækisins á Very Large Telescope ESO sést þyrilvetrarbrautin NGC 3981 í allri sinni dýrð. Myndin var tekin fyrir ESO Cosmic Gems verkefnið sem nýtir þær sjaldgæfu stundir þegar aðstæður henta ekki til vísindalegra mælinga en eru samt nógu góðar til þess að taka megi fallegar myndir af ýmsum fyribærum með sjónaukun ESO á suðurhveli.

Þessi fallega mynd er af þyrilvetrarbrautinni NGC 3981, svífandi um í tómarúminu. Vetrarbrautin er í stjörnumerkinu Bikarnum og var myndin af henni tekin í maí 2018 með FOcal Reducer and low dispersion Spectrograph 2 (FORS2) mælitækinu á Very Large Telescope (VLT) ESO

FORS2 er á VLT sjónauka 1 (Antu) í Paranal stjörnustöð ESO í CHile. FORS2 er ólíkt öðrum mælitækjum í VLT sjónaukunum fjórum vegna þess hve fjölhæft það er. Segja má að tækið sé „svissneskur vasahnífur“ því það getur rannsakað fjölda mismunandi fyrirbæra á ýmsa vegu – sem og taka glæsilegar myndir eins og þessa sem hér sést.

Á mynd FORS2 sjást þyrilarmar NGC 3981 vel og stór gas- og rykský í þeim sem og stjörnumyndunarsvæði og hópar heitra ungra stjarna. Vetrarbrautin hallar í átt til jarðar svo stjörnufræðingar geta skyggnst beint inn í hjarta vetrarbrautarinnar og rannsakað miðjuna. Þar lúrir risasvarthol. Í NGC 3981 sést líka hvernig sumir þyrilarmarnir virðast liggja út á við en það er merki um ævaforna víxlverkun við aðra vetrarbraut.

NGC 3981 á marga nágranna. Hún er í um 65 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni og tilheyrir NGC 4038 hópnum, sem einnig inniheldur vetrarbrautir sem kallast Loftnetið. Þessi vetrarbrautahópur er hluti af Bikarsskýinu sem er mun stærra og tilheyrir Meyjar-ofurþyrpingunni, tröllauknu safni vetrarbrauta sem við tilheyrum sömuleiðis.

NGC 3981 er ekki eina áhugaverða fyrirbærið á myndinni. Fyrir utan nokkrar stjörnur úr Vetrarbrautinni okkar á víð og dreif um myndina sjást líka smástirni sem dauf lína ofarlgea á myndinni. Smástirnið sýnir hvernig myndin var sett saman því blái, græni og rauði liturinn sýnir glögglega hvernig þremur mismunandi myndum hefur veirð skeytt saman.

Myndin var tekin fyrir Cosmic Gems verkefni ESO sem snýst eingöngu um að útbúa fallegar ljósmyndir af himingeimnum í þeim tilgangi að miðla vísindum til almennings. Verkefnið fær aðeins úthlutuðum þeim tíma í sjónaukunum þegar aðstæður bjóða ekki upp á nákvæmar vísindalegar mælingar en eru nógu góðar til að taka fallegar myndir af áhugaverðum, forvitnilegum og fallegum fyrirbærum í geimnum. Gögnin eru síðan gerð aðgengileg stjörnufræðingum í gagnasafni ESO.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, Extremely Large Telescope eða ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Calum Turner
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6670
Tölvupóstur: pio@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1830.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1830is
Nafn:NGC 3981
Tegund:Local Universe : Galaxy : Type : Spiral
Facility:Very Large Telescope
Instruments:FORS2

Myndir

A Galactic Gem
A Galactic Gem
texti aðeins á ensku
Digitized Sky Survey image around the spiral galaxy NGC 3981
Digitized Sky Survey image around the spiral galaxy NGC 3981
texti aðeins á ensku
NGC 3981 in the constellation of Crater
NGC 3981 in the constellation of Crater
texti aðeins á ensku

Myndskeið

ESOcast 177 Light: A Galactic Gem (4K UHD)
ESOcast 177 Light: A Galactic Gem (4K UHD)
texti aðeins á ensku
Zooming into NGC 3981
Zooming into NGC 3981
texti aðeins á ensku
Panning across NGC 3981
Panning across NGC 3981
texti aðeins á ensku