eso1838is — Fréttatilkynning

Geimsnákur um risastjörnur

VLT sjónauki ESO tekur mynd af hlykkjóttum árekstrum stjörnuvinda

19. nóvember 2018

VISIR mælitækið á Very Large Telescope ESO tók þessa glæsilegu mynd af árekstri stjörnuvinda í nýfundnu þrístirnakerfi. Kerfið er kallað Apep eftir fornegypskum guði en þetta gæti verið fyrsta verðandi uppspretta gammablossa sem fundist hefur.

Miklar hamfarir bíða þessa snákalaga eða bugðótta sveip sem sést hér á mynd sem tekin var með VISIR mælitækinu á Very Large Telescope (VLT) ESO. Þetta er kerfi Wolf-Rayet stjarna og sennilega verðandi uppspretta einhverra orkuríkustu sprenginga í alheiminum – langra gammablossa.

„Þetta er fyrsta kerfið af þessari tegund sem við finnum í Vetrarbrautinni,“ sagði Joseph Callingham við Útvarpsstjörnufræðistofnun Hollands (ASTRON), aðalhöfundur greinar um rannsókn á kerfinu. „VIð áttum aldrei von á því að finna svona kerfi í bakgarðinum okkar.“[1].

Kerfið samanstendur af þremur efnismiklum stjörnum í ryksveipi og ber hið óþjála skráarheiti 2XMM J160050.7-514245. Stjörnufræðingarnir vilja þó heldur kalla það „Apep“.

Apep dregur nafn sitt af hlykkjóttri löguninni sem minnir um margt á snák sem vefur sig um stjörnurnar. Apep var fornegypskur guð, risavaxinn snákur sem táknaði ringulreið eða óreiðu og passar það vel við þetta mikla stjörnukerfi. Talið var að sólarguðinn Ra berðist við Apep á hverri nóttu en bænir og tilbeiðslur tryggðu Ra sigur og endurkomu sólar.

Gammablossar eru orkuríkustu sprengingarnar í alheiminum. Þær standa yfir frá nokkrum þúsundustu hlutum úr sekúndu upp í fáeinar klukkustundir og geta þá losað álíka mikla orku og sólin gerir á allri sinni ævi. Langir gammablossar – þeir sem endast í meira en tvær sekúndur – eru taldir eiga rætur að rekja til Wolf-Rayet stjarna sem snúast hratt og springa.

Sumar efnismestu stjörnurnar þróast í Wolf-Rayet stjörnur í ævilok. Þetta æviskeið er stutt en Wolf-Rayet stjörnur endast jafnan ekki í nema nokkur hundruð þúsund ár – augnablik á stjarnfræðilegan mælikvarða. Þá varpa þær gríðarmiklu magni af efni út í geiminn á formi stjörnuvinda sem sumir hverjir blása á nokkurra milljón kílómetra hraða á klukkustund. Stjörnuvindar Apeps ferðast með 12 milljón kílómetra hraða á klukkustund.

Stjörnuvindarnir hafa mótað sveipina stóru sem umlykja þrístirnið sem samanstendur af tveimur stjörnum sem snúast hvor um aðra og staka fylgistjörnu sem snýst um þær báðar. Þótt svo virðist sem á myndinni sjáist aðeins tvær stjörnur er neðri bjarti bletturinn í raun tvær Wolf-Rayet stjörnur. Þetta tvístirni á sök á sveipunum sem umvefja Apep en þeir myndast þegar stjörnuvindarnir frá Wolf-Rayet stjörnunum rekast saman.

Rykið sjálft ferðast „hægt“ miðað við stjörnuvindana sjálfa, eða á innan við 2 milljón km hraða á klukkutund. Þessi hraðamunur er talinn stafa af því að önnur stjarnanna í tvístirnakerfinu gefur bæði frá sér hraðan og hægan vind í mismunandi áttir.

Þetta bendir til þess að stjarnan sé að ganga í gegnum krítískan snúning – það er, hún snýst svo hratt að hún er nálægt því að rífa sjálfa sig í sundur. Wolf-Rayet stjörnur sem snúast svo hratt eru taldar uppsprettur langra gammablossa þegar þær hrynja saman í ævilok.

Skýringar

[1] Callingham, sem nú er við Útvarpsstjörnufræðistofnun Hollands (ASTRON), gerði hluta þessarar rannsóknar á meðan hann var við Sydneyháskóla ásamt Peter Tuthill sem hafði umsjón með rannsóknarteyminu. Mælingar voru gerðar með sjónaukum ESO, sem og Anglo-Australian sjónaukanum í Siding Spring stjörnustöðinni í Ástralíu.

Frekari upplýsingar

Rannsóknin var kynnt í greininni „Anisotropic winds in Wolf-Rayet binary identify potential gamma-ray burst progenitor” sem birtist í Nature Astronomy hinn 19. nóvember 2018.

Í rannsóknarteyminu voru J. R. Callingham (ASTRON, Dwingeloo, the Netherlands), P. G. Tuthill (Sydney Institute for Astronomy [SIfA], University of Sydney, Australia), B. J. S. Pope (SIfA; Center for Cosmology and Particle Physics, New York University, USA; NASA Sagan Fellow), P. M. Williams (Institute for Astronomy, University of Edinburgh, UK), P. A. Crowther (Department of Physics & Astronomy, University of Sheffield, UK), M. Edwards (SIfA), B. Norris (SIfA), and L. Kedziora-Chudczer (School of Physics, University of New South Wales, Australia).

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Írlands, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, Extremely Large Telescope eða ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Joseph Callingham
Postdoctoral Research Fellow — Netherlands Institute for Radio Astronomy (ASTRON)
Dwingeloo, The Netherlands
Sími: +31 6 2929 7915
Tölvupóstur: callingham@astron.nl

Calum Turner
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6670
Farsími: +49 151 1537 3591
Tölvupóstur: pio@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1838.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1838is
Tegund:Milky Way : Star : Type : Wolf-Rayet
Milky Way : Star : Grouping : Binary
Facility:Very Large Telescope
Instruments:VISIR
Science data:2019NatAs...3...82C

Myndir

Coils of Apep
Coils of Apep
texti aðeins á ensku
Apep in the constellation of Norma
Apep in the constellation of Norma
texti aðeins á ensku
Digitized Sky Survey image around Apep
Digitized Sky Survey image around Apep
texti aðeins á ensku

Myndskeið

ESOcast 185 Light: Cosmic Serpent
ESOcast 185 Light: Cosmic Serpent
texti aðeins á ensku
Zooming in on Apep
Zooming in on Apep
texti aðeins á ensku