eso1902is — Fréttatilkynning

Augnablik í tíma

Cosmic Gems verkefni European Southern Observatory fangar síðustu andartök deyjandi stjörnu

22. janúar 2019

Daufur bjarmi hringþokunar ESO 577-24 lýsir í aðeins andartak – um 10.000 ár – á stjarnfræðilegan mælikvarða. Very Large Telescope ESO tók þessa mynd af glóandi gasskel – síðustu augnablikunum í ævi deyjandi stjörnu sem glittir í í miðjunni. Þegar þessi hringþoka þenst út og dofnar, hverfur hún úr augsýn að eilífu.

Á þessari fallegu mynd sést glóandi gasskel hringþokunnar ESO 577-24 [1]. Hringþokan er leifar dauðrar riastjörnu sem hefur varpað frá sér ystu efnislögum sínum út í geiminn og skilið eftir sig litla og gríðarheita stjörnuleif, hvítan dverg. Skýið kólnar hægt og rólega og endar sem draugur rauðrar risastjörnu sem eitt sinn skein skært.

Rauðir risar eru stjörnur sem í ævilok hafa klárað vetnið í kjörnum sínum og tekið að dragast saman vegna þyngdarkraftsins. Þegar rauður risi skreppur saman kveikir þrýstingurinn í kjarnanum aftur sem veldur því að ytri lögin þeysast burt út í geiminn á formi öflugra stjörnuvinda. Kjarni stjörnunnar deyjandi geislar frá sér útfjólubláu ljósi sem er nógu orkuríkt til þess að jóna þessi efnislög svo þau taka að skína. Úr verður hringþoka sem markar síðustu augnablikin í ævi stjörnunnar [2].

Þessi fallega hringþoka fannst í National Geographic Society – Palomar Observatory Sky Survey verkefninu upp úr 1950 og rataði í Abell hringþokuskrána árið 1966 [3]. ESO 577-24 er í um 1400 ljósára fjarlægð frá Jörðinni og sést aðeins með mjög öflugum sjónaukum. Þokan heldur áfram að þenjast út og þegar dvergstjarnan í miðjunni kólnar nægilega hverfur þokan smám saman.

Þessi mynd af ESO 577-24 kemur úr ESO Cosmic Gems verkefninu sem snýst eingöngu um að útbúa fallegar ljósmyndir af himingeimnum í þeim tilgangi að miðla vísindum til almennings. Verkefnið fær eingöngu úthlutuðum þeim tíma í sjónaukunum þegar aðstæður bjóða ekki upp á nákvæmar vísindalegar mælingar en eru nógu góðar til að taka fallegar myndir af áhugaverðum, forvitnilegum og fallegum fyrirbærum í geimnum. Gögnin eru síðan gerð aðgengileg stjörnufræðingum í gagnasafni ESO.

Skýringar

[1] Stjörnufræðingar á 18. öld fundu fyrstu hringþokurnar. Fyrir þeim litu þær út eins og daufar reikistjörnur og voru þess vegna kallaðar planetary nebula eða plánetuþokur. Íslenska heitið er engu að síður hringþokur.

[2] Þegar sólin okkar þróast í rauðan risa verður hún orðin um 10 milljarða ára gömul. Engin ástæða er til að örvaænta – sólin er núna aðeins um 5 milljarða ára.

[3] Stjarnfræðileg fyrirbæri bera gjarnan ýmis nöfn eða skráarheiti. Í Abell hringþokuskránni er formlegt heiti þessarar þoku PN A66 36.

Frekari upplýsingar

ESO er fremsta fjölþjóðlega stjörnustöð Evrópu og lang öflugasta stjörnustöð heims. Hún nýtur stuðnings 16 landa: Austurríkis, Belgíu, Tékklands, Danmörku, Finnlands, Frakklands, Þýskalands, Ítalíu, Írlands, Hollands, Póllands, Portúgals, Spánar, Svíþjóðar, Sviss og Bretlands, auk gestaþjóðarinnar Chile. ESO heldur úti metnaðarfullum verkefnum sem miða að hönnun, smíði og starfsemi öflugra stjörnustöðva á jörðinni sem gera stjörnufræðingum kleift að gera mikilvægar uppgötvanir. ESO leikur líka lykilhlutverk í að efla og skipuleggja samstarf í stjarnvísindarannsóknum. ESO starfrækir þrjár stjörnuathugunarstöðvar í heimsflokki: La Silla, Paranal og Chajnantor. Á Paranalfjalli starfrækir ESO Very Large Telescope, fullkomnustu stjörnusjónauka heims sem notaðir eru til athugana á sýnilegu ljósi og tvo kortlagningarsjónauka. VISTA er stærsti kortlagningarsjónauki veraldar fyrir innrautt ljós og VLT Survey Telescope er stærsti sjónauki heims sem eingöngu er ætlað að kortleggja himinn í sýnilegu ljósi. ESO er stór þátttakandi í ALMA, stærsta stjarnvísindaverkefni heims. Á Cerro Armazones, skammt frá Paranal, er ESO að smíða 39 metra risasjónauka, Extremely Large Telescope eða ELT sem verður „stærsta auga jarðar“.

Tenglar

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefurinn
Ísland
Farsími: 8961984
Tölvupóstur: eson-iceland@eso.org

Calum Turner
ESO Public Information Officer
Garching bei München, Germany
Sími: +49 89 3200 6655
Tölvupóstur: pio@eso.org

Connect with ESO on social media

Þetta er þýðing á fréttatilkynningu ESO eso1902.

Um fréttatilkynninguna

Fréttatilkynning nr.:eso1902is
Nafn:ESO 577-24
Tegund:Milky Way : Nebula : Type : Planetary
Facility:Very Large Telescope
Instruments:FORS2

Myndir

A Fleeting Moment in Time
A Fleeting Moment in Time
texti aðeins á ensku
Digitized Sky Survey image around the planetary nebula ESO 577-24
Digitized Sky Survey image around the planetary nebula ESO 577-24
texti aðeins á ensku
The planetary nebula ESO 577-24 in the constellation Virgo
The planetary nebula ESO 577-24 in the constellation Virgo
texti aðeins á ensku

Myndskeið

ESOcast 191 Light: A Fleeting Moment in Time
ESOcast 191 Light: A Fleeting Moment in Time
texti aðeins á ensku
Panning across the evanescent planetary nebula ESO 577-24
Panning across the evanescent planetary nebula ESO 577-24
texti aðeins á ensku
Zooming in on ESO 577-24
Zooming in on ESO 577-24
texti aðeins á ensku