Gagnasafn

Vísindagagnasafn

Hjá ESO starfar hópur manna við gagnasafn samtakanna. Þeir taka við gögnum frá sjónaukum ESO og Hubblessjónaukanum og dreifa til vísindamanna.

Archive Operations RoomÁr hvert er ríflega 200 terabætum (TB) af gögnum dreift úr gagnasafni ESO. Í október 2017 voru um 1,01 petabæt (PB), 44,8 milljónir skráa í gagnasafni ESO og bætast um 131 TB við á ári. Magnið mun fljótlega tífaldast eða svo þegar gögn frá VISTA bætast við, en sjónaukinn framleiðir um 150 TB af gögnum á ári.

Í gagnasafni ALMA eru um 20,8 milljónir skráa, 416 TB af gögnum og bætast við um 200 TB á ári. ALMA flytur líka um 200 TB á ári til annarra notenda.

Gagnaþjónar ESO í Chile og Þýskalandi eru samstilltir. Tæknin og umfangið bak við þá er sambærilegt við stórfyrirtæki eins og alþjóðlega banka.

Stafrænn alheimur

Framfarir síðustu ára í smíði sjónauka og mælitækja og í tölvutækni gerir stjörnufræðingum kleift að afla feikilegs magns upplýsinga. Til eru stór gagnasöfn með myndum af himninum á öllum bylgjulengdum rafsegulrófsins (gammageislum, röntgengeislum, sýnilegu ljósi, innrauðu ljósi og útvarpsbylgjum).

Stjörnufræðingar leita stöðugt nýrra leiða til að stunda vísindi og auðvelda aðgang að þessum &bdquostafræna alheimi". Þess vegna hafa tölvunet verið útbúin svo hægt sé að dreifa og deila gögnum í gegnum svonefndar „sýndarstjörnustöðvar". Sýndarstjörnustöð er gagnaveita sem geymir stjarnfræðilegar upplýsingar.

Þetta samfélagsverkefni er í stöðugri þróun um heim allan undir forystu International Virtual Observatory Alliance (IVOA) og í Evrópu sem hluti af EURO-VO verkefninu.

Sýndarstjörnustöðvar sönnuðu gildi sitt þegar menn fundu 31 dulstirni í gagnasafni GOODS (Great Observatories Origins Deep Survey). Við það fjórfaldaðist fjöldi þekktra dulstirna á leitarsvæði GOODS. Þessi uppgötvun bendir til þess að menn hafi stórlega vanmetið fjölda öflugra risasvarthola í alheiminum (Fréttatilkynning eso0418).