Fjarreikistjörnur

Leitin að reikistjörnum utan okkar sólkerfis

Leitin að reikistjörnum utan okkar sólkerfis snýst að miklu leyti um leit okkar að svari við einni merkustu spurningu mannkyns: Er líf annars staðar í alheiminum? Í stjörnustöðvum ESO eru einstök mælitæki til að finna, rannsaka og fylgjast með svonefndum fjarreikistjörnum.

Með Very Large Telescope tókst stjörnufræðingum í fyrsta sinn að greina ljós reikistjörnu utan okkar sólkerfis og taka í leiðinni fyrstu ljósmyndina af fjarreikistjörnu. Þessi hnöttur er risi, um fimm sinnum massameiri en Júpíter. Þessar athuganir marka fyrsta stóra skrefið í átt að einu mikilvægasta markmiði nútíma stjarnvísinda: Að greina eðliseiginleika og efnasamsetningu risareikistjörnu og að lokum lítilla bergreikistjarna. Sjá fréttatilkynningu eso0507.

VLT hefur einnig gengt lykilhlutverki í uppgötvun á sjö bergreikistjörnu má stærð við Jörðina í kringum stjörnu í aðeins 40 ljósára fjarlægð, TRAPPIST-1. Þrjár reikistjarnanna eru í lífbeltinu og gætu haft höf á yfirborðinu sem yki líkur þess að þar gæti leynst líf. Þetta sólkerfi hefur mestan fjölda bergreikistjarna sem fundist hafa til þessa og mestan fjölda hnatta sem gætu haft fljótandi vatn á yfirboðrinu. Sjá fréttatilkynningu eso1706.

Með HARPS-litrófsritanum fundu stjörnufræðingar hvorki fleiri né færri en fjórar reikistjörnur á braut um nálæga sólstjörnu. Allar voru þær massaminni en Neptúnus og tvær þeirra álíka massamiklar og jörðin – þær smæstu sem fundist hafa hingað til. Í lífbelti stjörnunnar fannst sjö jarðmassa reikistjarna. Umferðartími hennar um móðurstjörnuna er 66 dagar. Stjörnufræðingar telja að þessi reikistjarna sé þakin hafi. Uppgötvunin markaði tímamót í leit að reikistjörnum sem gætu viðhaldið lífi. Sjá fréttatilkynningu eso0915.

Með hjálp HARPS hafa stjörnufræðingar einnig fundið sönnunargögn fyrir reikistjörnu á brraut um nálægustu stjörnuna við sólkerfið okkar, Proxima Centauri. Þessi berghnöttur er örlítið efnismeiri en Jörðin og hitastigið á yfirborði hans er passlegur fyrir fljótandi vatn. Sjá fréttatilkynningu eso1629. 

Annar sjónauki á La Silla er hluti af neti sjónauka á víð og dreif um jörðina og leitar fjarreikistjarna með örlinsuhrifum. Í þessu samstarfi fannst reikistjarna sem er sennilega líkari jörðinni en nokkur önnur sem fundist hefur hingað til. Hún er aðeins fimm jarðmassar og hringsólar um móðurstjörnuna á um það bil 10 árum. Yfirborð hennar er næsta áreiðanlega úr bergi eða ís. Sjá fréttatilkynningu eso0603.

Hér má nálgast sérstakan bækling um fjarreikistjörnur (á ensku).


"Flestir litrófsritar nútímans hefðu ekki getað skilið milli venjulegs suðs og merkisins sem við uppgötvuðum með HARPS."

Michel Mayor, Stjörnustöðinni í Genf, einn þeirra sem fann fyrstu fjarreikistjörnuna um stjörnu á meginröð.
...

Fjarreikistjarna úr ís (teikning)