Svarthol í miðju Vetrarbrautarinnar

Hvað liggur í miðju Vetrarbrautarinnar? Stjörnufræðinga grunaði lengi að í miðju Vetrarbrautarinnar leyndist svarthol en gátu ekki vitað það fyrir víst. Ótvíræð sönnunargögn fengust ekki fyrr en fylgst hafði verið með hreyfingu stjarna umhverfis miðju Vetrarbrautarinnar um 15 ára skeið með sjónaukum ESO á La Silla og Paranal.

Stjörnur við miðju Vetrarbrautarinnar eru svo þétt saman að sérstaka ljósmyndatækni eins og aðlögunarsjóntækni þarf til að auka upplausn VLT svo hægt sé að greina þær í sundur. Slóðir þeirra sýna, svo ekki verður um villst, að þær eru á braut um gríðarlega massamikið risasvarthol sem er næstum fjórum milljón sinnum massameira en sólin okkar. Athuganir VLT leiða einnig í ljós innrauða ljósblossa sem bárust frá svæðinu með reglulegu millibili. Þótt uppruni blossanna sé óþekktur benda athuganir til að þá megi rekja til hraðs snúnings svartholsins. Hvað svo sem um er að ræða, þykir ljóst að mikið gengur á í miðju Vetrarbrautarinnar. Sjá fréttatilkynningu eso1332, eso1151, eso0846, eso0226, og eso0330.

Stjörnufræðingar hafa líka notað VLT til að skyggnast inn að miðju annarra vetrarbrauta. Þar finna þeir líka skýr merki risasvarthola. Í virku vetrarbrautinni NGC 1097 sást flókið net stróka sem vindur sig niður að miðju vetrarbrautarinnar. Þetta sýnir í fyrsta sinn ferlið sem ber efni niður að kjarna vetrarbrautar. Sjá fréttatilkynningu eso0109, eso0319, eso0414, eso0529, og eso0534.

Árið 2018 náði 26 ára löng mæliherferð með VLT hápunkti þegar áhrif sem almenna afstæðiskenning Einsteins spáir fyrir um, mældust á hreyfingu stjörnu sem fór í gegnum gríðarsterkt þyngdarsvið risasvartholsins í miðju Vetrarbrautarinnar. Sjá nánar í fréttatilkynningu ESO eso1825

"Við þurftum enn skýrari myndir til að skera úr um hvort eitthvað annað en svarthol gæti hugsanlega verið þarna og stóluðum á VLT sjónauka ESO til þess. Nú er sá tími runninn upp að við getum loksins rannsakað svarthol fyrir alvöru!"

Reinhard Genzel, forstöðumaður Stofnunar Max Planck í stjarneðlisfræði
ESO Observations

Near-Infrared Flare from Galactic Centre