Gammablossar

Björtustu fyrirbæri alheims

Gammablossar eru hrinur háorkugeislunar sem berast til jarðar utan úr geimnum. Hver hrina er skammlíf og getur varað allt frá sekúndubrotum upp í nokkrar mínútur – í augnablik á tímakvarða alheimsins. Gammablossar eru alla jafna í órafjarlægð frá jörðinni, nálægt endimörkum hins sýnilega alheims.

VLT greindi glæður gammablossa sem reyndist fjarlægasta fyrirbæri sem nokkurn tímann hefur sést í alheimi. Rauðvik blossans mældist 8,2 sem þýðir að ljósið frá þessari fjarlægu sprengingu var meira en 13 milljarða ára á leiðinni til okkar. Blossinn varð þegar alheimurinn var innan við 600 milljón ára gamall eða innan við fimm prósent af núverandi aldri. Á nokkrum sekúndum losnaði 300 sinnum meiri orka í blossanum en sólin okkar gefur frá sér á allri 10 milljarða ára ævi sinni. Gammablossar eru þar af leiðandi orkuríkustu sprengingar alheimsins eftir Miklahvell. Sjá fréttatilkynningu eso0917.

Stjörnufræðingar hafa lengi reynt að skilja eðli þessara sprenginga. Athuganir sýna að gammablossar eru ýmist stuttir (sekúnda eða skemmri) eða langir (nokkrar sekúndur). Lengi vel var því talið að tvenns konar atburðir yllu þeim.

Árið 2003 áttu stjörnufræðingar ESO veigamikinn þátt í að tengja langa gammablossa við sprengingar massamestu risastjarnanna. Stjörnufræðingarnir fylgdust með glæðum gammablossa í heilan mánuð og sáu að ljósið hafði samskonar eiginleika og ljós dæmigerðra sprengistjarna. Sjá fréttatilkynningu eso0318.

Árið 2005 greindu stjörnufræðingar með sjónauka ESO í fyrsta sinn sýnilegar glæður stuttra gammablossa. Stjörnufræðingar fylgdust með ljósinu um þriggja vikna skeið og sáu að stuttu blossarnir gátu ekki verið af völdum risasprengistjarna. Þess vegna telja menn að stuttir gammablossar séu af völdum samruna nifteindastjarna eða svarthola. Sjá fréttatilkynningu eso0541.

ESO Observations

Artist’s impression of a gamma-ray burst